Nokkur hundruð flugferðum til og frá borginni Peking í Kína hefur verið aflýst eftir að kórónuveiran tók að breiðast út um borgina á ný. Yfirvöld í Peking greindu frá því í dag að þrjátíu og eitt nýtt tilfelli hafi greinst í borginni síðan í gær.
Á síðustu sex dögum hafa nærri eitt hundrað og fjörutíu greinst með veiruna. Flest tilfellin tengjast matarmarkaði í borginni og er óttast að smitum komi til með að fjölga.
Gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar í borginni. Meðal annars með því að skima fleiri.
Síðustu daga hafa um fjögur hundruð þúsund borgarbúar verið skimaðir á hverjum degi fyrir kórónuveirunni.
„Allir þeir sem hafa komist í snertingu við eða tengjast Xinfadi-markaðnum verða að mæta í skimun og undirgangast kjarnsýrupróf. Á lykilstöðum, þar á meðal öllum landbúnaðarmörkuðum, verða gerð kjarnsýrupróf. Öll hverfi verða sett í sóttkví. Á lykilsvæðum verða allir settir í kjarnsýrupróf og umfang prófana verður útvíkkað. Frekari atriði eru undir eftirliti og stjórnun á hverjum stað komin,“ sagði Pang Xinghuo, aðstoðarforstjóri sóttvarnarmiðstöðvar Pekingborgar, á blaðamannafundi í dag.