Erlent

Segir að allt sem Trump geri snúist um endurkjör

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump í forgrunni og John Bolton horfir á.
Donald Trump í forgrunni og John Bolton horfir á. Getty/Chip Somodevilla

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta segir að fyrrverandi yfirmaður sinn sé „ótrúlega fáfróður“ og hafi hvorki getu né færni til þess að sinna starfi forsetans. Bolton segir að eina leiðarljós Trump í ákvörðunum sé möguleikinn á endurkjöri.

Bolton hefur verið í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga eftir að fjölmiðlar ytra birtu hluta af óútgefinni bók hans sem á að koma út í næstu viku. Þar varpar Bolton meðal annars ljósi á samskipti hans við forsetann. Hvíta húsið hefur farið fram á að útgáfa bókarinnar verði stöðvuð.

Í viðtali við ABC um bókina fer Bolton þungum orðum um Trump, segir Bolton að Trump sé „ótrúlega fáfróður“, skorti grunnþekkingu og að erlendir valdamenn eigi auðvelt með að nýta sér fávisku forsetans.

Í grundvallaratriðum segir Bolton að Trump sé einfaldlega óhæfur til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.

„Ég sá ekkert annað leiðarljós í starfi hans en það hvað er gott fyrir endurkjör Donald Trump,“ sagði Bolton við ABC. „Hann hafði hugann svo við endurkjör að langtímahagsmunir láta undan.“

Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi á meðan Trump hitti Vladimír Pútín Rússlandsforseta, Xi Jinping, forseta Kína, Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Bolton segir að Trump hafi ekki haft neinn áhuga á því að koma hagsmunum Bandaríkjanna áleiðis á þessum fundum, heldur hafi allt snúist um að láta Trump líta vel út með því að hitta þessa erlendu leiðtoga.

„Það var miklum tíma eytt í að hugsa um myndatækifæri og hvernig fjölmiðlar myndu bregðast við og litlu sem engu púðri eytt í að íhuga hvað slíkur fundur myndi gera fyrir samningsstöðu Bandaríkjanna,“ sagði Bolton um fundi Trump með Kim Jong Un.


Tengdar fréttir

Bók þjóðar­öryggis­ráð­gjafa Trump væntan­leg í júní

Lögmaður Johns Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að bók um tíma hans í Hvíta húsinu komi út 23. júní þrátt fyrir tilraunir lögmanna þess til að koma í veg fyrir útgáfuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×