Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg segir ríki heimsins þurfa að læra lexíu af kórónuveirufaraldrinum og bregðast við loftslagsbreytingum með sama hætti. Það er, að brugðist sé við breytingunum með jafn miklum krafti segir Greta í viðtali við breska ríkisútvarpið.
„Fólk er að byrja að fatta að við getum ekki horft fram hjá þessum hlutum,“ segir Greta og vísar í bæði loftslagsvána og málefni líkt og Black Lives Matter hreyfinguna. „Við getum ekki haldið áfram að sópa þessu óréttlæti undir teppið.“
Þá segir hún að samkomubann hafi gefið henni tíma til að slaka á og litið á málin frá öðru sjónarhorni. Mikilvægt hafi verið fyrir hana að fá að verja tíma úr sviðsljósinu.
Greta kynnti einnig hlaðvarp sem fór í loftið í morgun hjá ríkisútvarpi Svíþjóðar. Þar fjallar hún meðal annars um upplifun sína á því að verða einn frægasti aðgerðarsinni síðasta árs og í raun stórstjarna. Greta vakti fyrst athygli þegar hún hætti að mæta í skólann í hádegi á föstudögum til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.
Þá hefur hún ferðast víða til að tala um loftslagsmál og sigldi hún meðal annars yfir Atlantshafið til að tala á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmál sem haldin var í New York í Bandaríkjunum í september síðastliðnum.
Hún lýsir því hvernig það var þegar þjóðarleiðtogar biðu í röðum til að ná með henni mynd, þar á meðal Angela Merkel Þýskalandskanslari sem spurði hana um leyfi til að birta af þeim mynd á samfélagsmiðlum.
Lesa má viðtalið í heild sinni hér.