Hæsta verðið á matvöru er í flestum tilvikum að finna í Krambúðinni samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ en verð Krambúðarinnar var það hæsta í 51 af 121 tilviki sem skoðað var.
Á hinum endanum var það Bónus sem bauð upp á lægsta verðið í 81 tilviki af 121. Fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar að í 35 tilvikum hafi munur á hæsta og lægsta verði verið yfir 60%. 237% verðmunur var á kílóverðum á frosnum jarðaberjum, 100% munur á Whole Earth hnetusmjöri og Minute Maid safa og 78% á Tilda Basmati hrísgrjónum.
Samkvæmt könnuninni var næst oftast hægt að finna hæsta verðið í verslunum Hagkaupa og Heimkaupa en í hvorri versluninni var að finna hæsta verðið í 23 tilfellum. Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 14 tilvikum. Verð var lægst í Krónunni 9 sinnum og í Nettó 7 sinnum.