Það er úr nægu að velja á sportrásum Stöðvar 2 í dag. Pepsi Max mörkin, ítalski boltinn, spænski boltinn og PGA-mótaröðin í Golfi er meðal þess sem verður á boðstólnum.
Atalanta og Napoli eigast við í spennandi viðureign í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta og er sá leikur sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í dag kl. 17:20.
Real Madrid getur aukið forskot sitt á Barcelona á toppnum þegar liðið fær Getafe í heimsókn en Getafe er óvænt í harðri baráttu um að komast í Meistaradeild Evrópu. Bein útsending frá leiknum hefst kl. 19:50 á Stöð 2 Sport 2.
Pepsi Max mörk kvenna verða á sínum stað kl. 20:00 á Stöð 2 Sport. Þar fer Helena Ólafsdóttir ásamt sérfræðingum Stöðvar 2 Sports yfir síðustu leiki í Pepsi Max deild kvenna auk þess sem rætt er vítt og breitt um knattspyrnu kvenna.
Á Stöð 2 Sport 3 verða sýndir klassískir körfuboltaleikir úr Dominos deildum karla- og kvenna frá morgni til kvölds, fyrir þá sem þyrstir í körfuboltagláp.
Þá hefst fyrsti dagurinn af fjórum á Rocket Mortgage Classic mótinu í golfi í dag og verður sýnt frá mótinu í beinni á Stöð 2 Golf frá kl. 19:00, en mótið er hluti af PGA-mótaröðinni í Golfi.