Fimm greindust með kórónuveiruna við landamæraskimun í gær. Beðið er eftir niðurstöðum mótefnamælingar í tveimur af smitunum fimm en mótefni mældust í sýnum þriggja aðila.
Með því fjölgaði þeim sem eru í einangrun vegna kórónuveirusmits um fjóra á milli daga en í sóttkví eru nú 441 og fjölgaði þeim því um þrjá frá því að síðustu tölur voru birtar.
19.189 sýni hefur verið tekið á landamærunum og 66.725 sýni innanlands.
Tekin voru 1.484 sýni á landamærum Íslands í gær, 138 á veirufræðideild LSH og 259 hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Greint var frá því í gær að við komu Norrænu til hafnar í Seyðisfirði hafi tveir farþeganna reynst smitaðir af kórónuveirunni. Annað smitið hafði greinst við komuna í ferjuna og hafði farþeginn verið í einangrun alla siglinguna frá Danmörku og vísbendingar voru uppi um að hitt smitið væri gamalt.