Nýr forsætisráðherra Frakklands tilkynnti í dag skipan ríkisstjórnar sinnar. Einhverjar mannabreytingar hafa orðið en að sama skapi halda nokkrir ráðherrar stöðum sínum.
Jean Castex tók við embætti forsætisráðherra á föstudaginn af Edouard Philippe og er hann annar forsætisráðherra í stjórnartíð Emmanuel Macron Frakklandsforseta. France24 greinir frá.
Í nýrri ríkisstjórn Frakklands heldur Bruno Le Maire stöðu fjármálaráðherra og sömu sögu má segja um Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra, Olivier Véran heilbrigðisráðherra, Jean-MIchel Blanquer menntamálaráðherra og Florence Parly varnarmálaráðherra.
Lögfræðingurinn Eric Dupond-Moretti tekur við dómsmálaráðuneytinu og Roselyne Bachelot er nýr menningarmálaráðherra Frakka.
Barbara Pompili, fyrrum meðlimur græna flokksins, tekur við umhverfisráðuneytinu en fyrirrennari hennar, Elisabeth Borne, færir sig yfir í atvinnumálaráðuneytið. Gerald Darmanin tekur að sér innanríkisráðuneytið en talið er að mikið muni mæða á honum enda hefur lögreglan verið gagnrýnd harðlega undanfarið og fellur hún innan hans málaflokks.
Elisabeth Moreno tekur við sem jafnréttismálaráðherra og nýr upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar hefur verið skipaður Gabriel Attal.