Skoðun

Á vængjum flautunnar

Arilíus Jónsson skrifar

Hljóðfæri eru eitt mikilvægasta fyrirbæri sem til er í heiminum. Þar eru blásturshljóðfærin fremst í flokki og þá sérstaklega flautur, enda spanna þau allan skala dýptar og hátóna og ráða við jafnt grunnspil sem skrautlegar flúrur. Margir gera sér ekki grein fyrir því hversu sterk áhrif fylgja þeim hljóðum sem framin eru á flautur og hversu ríkan þátt þau eiga í sögu okkar. Mörg dæmi sanna mikilvægi þeirra og þunga í veraldarsögunni.

Gríski sveitaguðinn Pan, sonur Hermesar, sem var hálfur maður og hálf geit, varð þekktur fyrir undurfagran leik sinn á reyrflautu. Hún hefur á seinni tímum hefur verið kölluð panflauta. Á vígvöllum og í varðturnum fyrri tíma var blásið í stóreflis lúðra þegar óvinaherir nálguðust eða þegar orrustan var í þann mund að hefjast. Í framandi löndum blása fylgismenn knattspyrnuliða í vuvuzela-lúðra til að hvetja afreksmenn til dáða. Og fáir geta gleymt Júlíusi smala sem lék svo listavel lagstúf á haglega útskorna flautu í sjóvnarpsþáttunum um Nonna og Manna forðum daga. Þegar Júlíus smaladrengur lánar Jóni Sveinssyni flautuna til afnota í þætti 2 má einnig glöggt heyra hversu vandasamt hljóðfæri flautan er; drengurinn nær engum tökum á blæstri eða tónum, kvikféð fælist og hleypur hvert í sína átt. Flautuleikur er gríðarlega krefjandi iðkan og fáir ná tökum á honum svo vel sé.

Á Íslandi er tónlistarlíf í miklum blóma. Fjöldi hljómsveita hefur náð vinsældum út fyrir landsteinana. Fáar þeirra hafa þó haft flautuna í liði með sér, en hérlendis er það helst meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Savanna-tríóið og síðast en ekki síst Vestmannaeyingurinn Gísli Helgason sem hafa notað flautur í sínum tónlistarflutningi. Eflaust má telja fleiri upp fleiri aðila. Af þessu má merkja að almennt virðist alþýða fólks hér á landi hafa lítinn áhuga á flautuleik og hljómsveitir telja notkun þeirra ekki líklegan til vinsælda eða árangurs.

Þó er ein tegund flautu sem allra minnst ber úr býtum, hvert sem litið er. Það er nasaflautan.

Þessi ómþýða og hljómfagra vinkona tónelskandi fólks hefur farið halloka fyrir flestum öðrum flautum og hljóðfærum. Að mínu áliti hefur hún hreinlega verið tröðkuð niður kerfisbundið af stjórnvöldum og tónlistarskólum, hvort sem þeir eru einkareknir eða fjármagnaðir með opinberu fé. Ég hef nú um árabil reynt af veikum mætti að vekja athygli á þessu en þeir sem stjórna tónlistarelítunni hér á landi virðast skella við skollaeyrum.

Engin kennsla fer fram á nasaflautu innan menntakerfisins á Íslandi. Engin af „vinsælli“ hljómsveitum landsins virðist líta við hljóðfærinu. Ekki er minnst einu orði á nasaflautuna í Aðalnámskrá tónlistarskóla, hvorki í almennum hluta hennar, tréblásturshljóðfærahluta eða málmblásturshljóðfærahluta. Enginn lítur við henni. Enginn hlustar.

Ég vil því grípa til þess örþrifaráðs að skora á Lilju Alfreðsdóttir menntamálaráðherra að bregðast við og koma kennslu á nasaflautu inn í aðalnámskrá tónskóla með sérstakri tilskipun áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur. Meðan enn til er áhugafólk og a.m.k. einn virkur tónlistarmaður sem vil halda nasaflautunni lifandi sem hljóðfæri er enn von um að notkun hennar leggist ekki af á Íslandi.

Höfundur er Hafnfirðingur og nasaflautuleikari.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×