Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag karlmann á sjötugsaldri, sem var handtekinn í kjölfar brunans mannskæða á Bræðraborgarstíg, í áframhaldandi gæsluvarðhald til 6. ágúst. Rannsókn á brunanum er sögð miða vel áfram.
Maðurinn var handtekinn í rússneska sendiráðinu við Túngötu í tengslum við brunann fimmtudaginn 25. júní. Hann var borinn út úr sendiráðinu í hand- og fótajárnum. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu sem var framlengt til 10. júlí. Það hefði því runnið út á morgun ef ekki hefði komið til framlengingar dagsins.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að gæsluvarðhald yfir manninum hafi verið framlengt í dag að kröfu hennar. Það hafi verið gert í þágu rannsóknarinnar. Lögreglan segir ekki hægt að gefa frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu.
Þrír létust í brunanum í húsi við Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní, allt pólskir ríkisborgarar. Einn er að sama skapi enn á gjörgæslu eftir brunann. Komið hefur fram að brunavörnum hafi verið ábótavant í húsinu. Fleiri tugir manns voru skráðir með lögheimili í húsinu, langflestir með erlent vegabréf en íslenska kennitölu.