Hlynur Andrésson bætti í gærkvöldi 37 ára gamalt Íslandsmet í 3000 metra hlaupi á móti í Hollandi. Þetta kemur fram á vef Frjálsíþróttasambandsins í dag.
Hlynur hljóp á 8:04,54 mínútum og bætti fyrra Íslandsmet Jón Diðrikssonar frá árinu 1983 um rúma sekúndu. Þetta er hans áttunda Íslandsmet.
Þetta er fyrsta mót Hlyns í sumar en þann 1. júlí var reglum aflétt í Hollandi sem banna mótahald þar í landi. Líkt og aðrir frjálsíþróttamenn hefur Hlynur neyðst til að æfa mikið einn.
Hlynur segir að það henti sér vel að bíða og hanga í mönnum þar til stutt sé eftir þar sem hann sé hvað sterkastur á endasprettinum.
Þegar þrír hringir voru eftir í gær - sem eru 1200 metrar - sá Hlynur að hann ætti möguleika á metinu og tók því af skarið. Það tókst vel þar sem hann náði forystunni og leiddi hlaupið það sem eftir var og setti Íslandsmet í leiðinni.
Er þetta enn eittmetið sem Hlynur bætir í safnið en hann á þegar metin í 5.000 og 10.000 metrum utanhúss og 3000 metra hindrunarhlaupi.
Hlynur á einnig Íslandsmetið í greininni innanhúss þar sem hann hefur hlaupið undir átta mínútum. Hann segist því klárlega stefna á að bæta met sitt utanhúss enn frekar og mun hann fá tækifæri til þess þegar hann keppir aftur í sömu vegalengd í Belgíu eftir tæpar þrjár vikur.