Enski boltinn

Kemur í ljós í dag hvort Evrópubann Manchester City standi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Í dag kemur í ljós hvort þessir leikmenn fái að taka þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Í dag kemur í ljós hvort þessir leikmenn fái að taka þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Vísir/Getty

Manchester City var fyrr í vetur dæmt í bann frá keppnum á vegum knattspyrnusambands Evrópu til næstu tveggja ára. City áfrýjaði dómnum til Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS, og í dag verður skorið úr um hvort bannið sé lögmætt. 

City var dæmt fyrir að brjóta fjárhagsreglugerð knattspyrnusambands Evrópu eða FFP-reglugerðina eins og hún er oftast kölluð. UEFA ákvað að kafa ofan í fjármál City eftir að þýski miðillinn Der Spiegel birti skjöl sem sýndu fram á að félagið hafði farið á mis við reglugerðina.

Árið 2014 var City sektað um 49 milljónir punda fyrir að brjóta reglur UEFA. Sektin var síðar lækkuð niður í 16 milljónir punda.

Talið er að niðurstaða dómstólsins gæti haft gífurleg áhrif á framtíð Manchester City sem og annara liða í Englandi og Evrópu.

The Independent svaraði nokkrum af þeim spurningum sem vert er að vita svörin við.

Hvað á City að hafa gert rangt?

Talið er að félagið hafi logið um hversu mikið fjármagn var að koma inn í gegnum styrktaraðila félagsins frá árunum 2012 og 2016. Þar með hafi félagið geta eytt meiri fjármunum en það mátti í raun og veru.

Þá gerði félagið ekkert sem í valdi þeirra stóð til að auðvelda rannsóknina.

Refsingin er tveggja ára bann frá Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni ásamt sekt upp á 30 milljónir evra.

Hvernig getur City varið sig?

Þeir þurfa að sýna fram á að þeir hafi ekki logið til um fjármagn sem kom inn í gegnum styrktaraðila. Takist þeim að sýna fram á það þá ættu þeir að vinna áfrýjunina.

Hvaða lið fer í Meistaradeildina ef bannið stendur?

City er sem stendur öruggt með að enda í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fari svo að bannið standi mun 5. sæti deildarinnar gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Getur enska úrvalsdeildin einnig refsað félaginu?

Já. FFP-reglur ensku úrvalsdeildarinnar eru töluvert „slakari“ en þær sem UEFA fer eftir. Ef dómurinn stendur og það kemur í ljós að City tapaði meira þeir mega samkvæmt reglum deildarinnar þá gæti deildin gripið til aðgerða.

Sekt væri líklegasta niðurstaðan þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×