Enski boltinn

Velur Tottenham fram yfir Aston Villa

Aron Guðmundsson skrifar
Gallagher í leik með Atletico Madrid
Gallagher í leik með Atletico Madrid Vísir/Getty

Conor Gallagher, miðjumaður Atletico Madrid, er að ganga í raðir Tottenham. 

Frá þessu greinir ítalski félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano í kvöld en Aston Villa hafði fyrr í dag náð samkomulagi við Atletico Madrid um kaupverð en leikmaðurinn sjálfur hafði aldrei gefið grænt ljós á þau félagsskipti.

Tottenham mun greiða Atletico Madrid um fjörutíu milljónir evra fyrir þjónustu Gallagher sem snýr nú aftur í enska boltann eftir að hafa á árum áður verið á mála hjá Chelsea.

Gallagher gekk í raðir Atletico Madrid árið 2024 en þá var hann keyptur fyrir um þrjátíu og átta milljónir evra frá Chelsea. 

Þessi 25 ára gamli leikmaður spilaði 77 leiki fyrir Atletico Madrid og skoraði í þeim leikjum sjö mörk og lagði upp sjö mörk að auki. 

Gengi Tottenham á yfirstandandi tímabili hefur ekki verið gott og mikil pressa hefur myndast á knattspyrnustjóra liðsins Thomas Frank. 

Tottenham féll úr leik í enska bikarnum um síðastliðna helgi eftir tap gegn Aston Villa og sem stendur situr liðið í 14.sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Í Meistaradeildinni er Tottenham hins vegar í ágætum málum í ellefta sæti eftir sex umferðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×