Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir varð í gær Íslandsmeistari í sprettþraut og vann sinn annan Íslandsmeistaratitil í júlímánuði.
Guðlaug Edda Hannesdóttir er í sumar að keppa í sínum fyrstu þrautum á Íslandi en hún hefur undanfarin ár keppt eingöngu erlendis. Kórónuveirufaraldurinn hefur breytt miklu fyrir marga og þar á meðal fyrir Eddu sem var á fullu að safna sér stigum inn á Ólympíuleikana í Tókýó.
Guðlaug Edda er í frábæru formi þessa dagana þrátt fyrir skrítnar aðstæður vegna COVID-19 og sýndi það með glæsilegri sprettþraut sinni í Hafnarfirði í gær.
Guðlaug Edda sagði frá þrautinni á Instagram síðu sinni sem og að hún hafi endað í þriðja sæti af öllum sem þýðir aðeins tveir karlar náðu að klára á undan Eddu.
Guðlaug Edda kom líka í mark á minna en klukkutíma því sigurtími hennar var 59 mínútur og 35 sekúndur.
Sprettþrautin í Hafnarfirði í gær innihélt 750 metra sund, 20 kílómetra á hjóli og svo að lokum 5 kílómetra hlaup. Vegalengdin er stöðluð hálf-ólympísk vegalengd.
Guðlaug Edda kláraði sundið á 9 mínútum og 22 sekúndum og var búin með hjólahlutann eftir 31 mínútu og 27 sekúndu.
Guðlaug Edda var að vinna sinn annan Íslandsmeistaratitil á einni viku því um síðustu helgi varð hún Íslandsmeistari í 10 kílómetra götuhlaupi. Hún kláraði þá á tímanum 34:55 mínútum sem er annar besti tími íslenskrar konu frá upphafi.