Ásta Sigríður Fjeldsted hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar og hefur hún störf 1. október 2020. Hún tekur við starfinu af Grétu Maríu Grétarsdóttur, sem kvaddi fyrirtækið í maí vegna ósættis við aðra stjórnendur Festar, móðurfélags Krónunnar eins og Vísir fjallaði um á sínum tíma.
Festi greinir frá ráðningu Ástu í tilkynningu til Kauphallarinnar. Ásta Sigríður kemur til Krónunnar frá Viðskiptaráði, þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra frá miðju ári 2017. Þá vann hún hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company, bæði á skrifstofum þess í Tókýó og Kaupmannahöfn. Þar áður var hún í starfsliði IBM í Danmörku og Össurar, bæði í Frakklandi og á Íslandi.
Ásta Sigríður er vélaverkfræðingur með M.Sc. gráðu frá DTU, Tækniháskólanum í Danmörku.
Í fyrrnefndri Kauphallartilkynningu segir Ásta að öflug, hagkvæm og ábyrg matvöruverslun sé einn lykilþátta í hagsæld okkar og lífskjörum almennings. „Krónan er þar afskaplega spennandi fyrirtæki sem hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár,“ segir Ásta.
„Krónan hefur á að skipa fjölda framúrskarandi starfsfólks sem hefur verið í fararbroddi á mörgum sviðum og munum við halda áfram því góða starfi, ásamt því að fást við þær miklu breytingar sem eru að verða á smásölumarkaðnum.“