Ökumaður var stöðvaður við ofsaakstur í miðborginni í nótt eftir að hafa ekið á 165 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða að því er segir í dagbók lögreglu og var honum sleppt að skýrslutöku lokinni.
Fleiri umferðarmál komu upp á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en meðal annars voru tveir ökumenn stöðvaður. Annar var undir áhrifum áfengis en hinn fíkniefna og var þeim báðum sleppt úr haldi lögreglu eftir sýnatöku. Málin eru nú í rannsókn.
Þá er ljóst að eitthvað var um fólk í miðbæ Reykjavíkur, en þegar skemmtistöðum var lokað var lögregla kölluð til fjórum sinnum vegna líkamsárása. Enginn er alvarlega slasaður eftir árásirnar samkvæmt upplýsingum frá lögreglu en málin eru öll í rannsókn.
Fyrr um kvöldið hafði lögregla verið kölluð til vegna slagsmála við krá í austurborginni. Þegar lögregla kom á vettvang höfðu mennirnir farið og þurfti lögregla því ekki að sinna málinu frekar.
Þá bárust lögreglu nokkrar kvartanir vegna gleðskaparhávaða í nótt.
Um níuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um heimilisofbeldi í vesturhluta Reykjavíkur. Lögregla og Barnavernd fóru á vettvang og er málið til rannsóknar. Um miðnætti var svo tilkynnt um mann í austurbænum sem var talinn vera mögulega að selja þýfi, en lögregla hafði ekki uppi á manninum þrátt fyrir leit.