Erlent

„Fordæmalaus stigmögnun“ í deilu Bandaríkjanna og Kína

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Kínversk stjórnvöld eru foxill eftir að Bandaríkjamenn skipuðu þeim að loka ræðisskrifstofu í borginni Houston.

Bandaríska utanríkisráðuneytið greindi frá þessari ákvörðun og sagði nauðsynlega til að fyrirbyggja njósnir hugverkastuld. Í gær hafði dómsmálaráðuneytið sakað Kínverja um að standa að tölvuárásum á tilraunastofur sem þróa nú bóluefni við kórónuveirunni. Tveir kínverskir ríkisborgarar voru ákærðir í málinu, sagðir hafa notið aðstoðar fulltrúa hins opinbera.

„Við búumst við því að Kommúnistaflokkur Kína hagi sér á ákveðinn hátt. Þegar flokksmenn gera það ekki grípum við til aðgerða til verndar Bandaríkjamönnum, þjóðaröryggi, hagkerfis okkar og störfum,“ sagði Mike Pompeo, bandaríski utanríkisráðherrann.

Ræðisskrifstofa Kínverja í Houston er ein af fimm sem þeir reka í landinu, til viðbótar við sendiráðið í Washington. Ekki liggur fyrir hvers vegna athygli Bandaríkjastjórnar beinist nú að Houston.

„Að undanförnu hafa Bandaríkjamenn ítrekað skellt skuldinni á Kína, smánað ríkið og ráðist á okkar kerfi að ástæðulausu. Þannig skapa Bandaríkin mikil vandræði fyrir kínverska diplómata og ræðismenn,“ sagði Wang Wenbin, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. 

Bandaríkjamenn hefðu í þokkabót áreitt kínverska námsmenn í landinu. Þá væri ákvörðunin um að loka ræðisskrifstofunni fordæmalaus stigmögnun í deilu ríkjanna.

Slökkvilið var kallað að ræðisskrifstofunni í nótt vegna eldsvoða. Fólk náðist á myndband á lóðinni fyrir utan við að henda pappírum í logandi tunnur. Óljóst er hvaða pappíra var verið að brenna, hver brenndu þá og hvers vegna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×