Innlent

Álverið mikilvægt en orkan fari ekki á útsölu

Samúel Karl Ólason skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Á sama tíma og bjóða á upp á samkeppnishæft umhverfi á að gera kröfu um að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í röð tísta sem hún birti í dag, þar sem hún fjallar um kvörtun Rio Tinto til samkeppniseftirlitsins vegna raforkusamningsins við Landsvirkjun vegna álversins í Straumsvík (ISAL).

Þórdís segir málið kalla á umræðu um alþjóðlega samkeppnishæfni stórnotenda á Íslandi. Hún segir einnig að umræðan um þriðja orkupakkann og nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar sýni fram á að ekki eigi að setja þær á útsölu.

Þórdís fer í tístum sínum yfir það hve mikilvægt álverið í Hafnarfirði sé fólkinu sem þar starfar, sveitarfélaginu og fjölmörgum öðrum. Hún segir yfirlýsingu fyrirtækisins um mögulega lokun álversins varpa óvissu á atvinnu fjölda fólks.

Rio Tinto segir í kvörtun sinni að Landsvirkjun hafi notað „yfirburðastöðu“ sína gegn álverinu í Straumsvík og raforkusamningurinn sé verulega óhagstæður fyrir fyrirtækið. Fyrirtækið greiði meira fyrir orku en aðrir álframleiðendur á Íslandi.

Rio Tinto segir að verði samningnum ekki breytt verði álverinu lokað.

Fyrr í vikunni sagðist Ketill Sigurjónsson sérfræðingur í orkumálum og framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi hefur reiknað út að Rio Tinto greiði um 35 bandaríkjadali á hverja megavattsstund og þar sé innifalinn flutningur orkunnar. Þetta væri umtalsvert meira en önnur álver á landinu en þeir samningar byggi á öðrum forsendum, í alþjóðlegum samanburði sé þetta þó ekki óeðlilega hátt verð.

Þórdís segir að ISAL sé mjög mikilvægt í mörgu tilliti. Ætla megi að sá hluti sölutekna ISAL sem renni til innlendra aðila sé um það bil 25 milljarðar króna á ári. ISAL noti um það bil 16 prósent af öllu rafmagni sem notað sé á Íslandi. Það hafi verið brautryðjandi á ýmsum sviðum eins og öryggismálum og starfsmenntamálum.

Hún segir einnig að Rio Tinto hafi selt eða lokað sjö af átta álverum fyrirtækisins í Evrópu og fimm til viðbótar. Í raun hafi fyrirtækið hætt rekstri allra álvera fyrirtækisins nema þess í Straumsvík og álveranna í Kanada. Þar sé orkan sem fari í álver fyrirtækisins ein sú ódýrasta sem þekkist.

Fyrsta tíst Þórdísar má sjá hér að neðan. Til að renna yfir þau öll þarf að smella á tístið hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×