Smitrakning er nú sögð standa yfir vegna hópsmits Covid-19 á Akranesi. Staðarmiðillinn Skessuhorn hefur þetta eftir aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Vesturlandi. Um er að ræða sex innanlandssmit sem greint var frá í gær.
Í frétt Skessuhorns kemur fram að lögreglunni hafi borist tilkynning um hópsmitið í dag. Ekki liggi fyrir hversu margir séu smitaðir en smitrakning standi yfir. Lögreglan hvetji fólk til að fara varlega á Akranesi í kjölfar smitsins.
Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er um að ræða sex einstaklinga sem greint var frá í gær að hefðu smitast innanlands. Smitin eru öll sögð tengjast einstaklingi sem kom til landsins 15. júlí og sætti ekki heimkomusmitgát vegna mistaka.
Fréttin hefur verið uppfærð.