Hinn sænski Zlatan Ibrahimovic skoraði tvö mörk í 4-1 sigri AC Milan á Sampdoria í ítölsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Með því skráði hann sig í sögubækurnar enn á ný en hann er nú eini leikmaður sögunnar til að skora 50 deildarmörk - eða fleiri - fyrir erkifjendurnar í AC og Inter Milan.
Sá sænski verður 39 ára í október en virðist hvergi nærri hættur. Hann hefur verið orðaður við heimkomu til Svíþjóðar þar sem hann er nú einn eiganda úrvalsdeildarliðsins Hammarby. Það er hins vegar ljóst að AC Milan vill halda í kappann enda gulls í gildi á vellinum.
Zlatan var í herbúðum Inter frá árunum 2006 til 2009. Yfirgaf hann félagið fyrir Barcelona þar sem hann vildi auka möguleika sína á að vinna Meistaradeild Evrópu. Kaldhæðni örlaganna samkvæmt þá vann Inter – undir stjórn José Mourinho – að sjálfsögðu Meistaradeildina strax ári síðar.
Það var svo um haustið 2010 sem hann var lánaður til AC Milan. Hann var svo keyptur ári síðar en var þó aftur á faraldsfæti að því tímabili loknu. Zlatan mætti svo enn á ný á San Siro-leikvanginn í Mílanó í janúar á þessu ári.
Alls hefur hann skorað níu mörk í þeim 17 leikjum sem hann hefur leikið fyrir Milan á tímabilinu. Þá hefur hann einnig lagt upp fimm mörk.
Þegar ein umferð er eftir af Serie A-deildinni er ljóst að Milan er öruggt með 6. sæti deildarinnar en það gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.
Samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt hefur Zlatan spilað 760 mótsleiki á ferlinum, skorað 466 mörk og lagt upp 185. Hefur hann skorað samtals 66 mörk fyrir bæði AC Milan og Inter.