Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt að hægt verði á enduropnun breskra landamæra og ferðatakmarkanir og smitvarnir verði framlengdar til minnst 8. ágúst. Enn sé útbreiðsla nýju kórónuveirunnar of mikil þar í landi. Nýsmituðum fer nú fjölgandi í Bretlandi og er það í fyrsta sinn frá því í maí.
Þegar hefur verið dregið úr félagsforðun í Bretlandi og virðist það hafa leitt til fjölgunar smitaðra. Undanfarna daga hafa um 4.200 manns greinst smitaðir á dag en fyrir viku síðan voru þeir 2.800, samkvæmt frétt BBC.
Alls hafa minnst 303.913 smitast af veirunni í Bretlandi, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum sem heldur utan um opinberar tölur. Minnst 46.084 hafa dáið.
Johnson sagði markmið þessara seinkana vera að sporna gegn útbreiðslu veirunnar og ná tökum á faraldrinum á nýjan leik. Auk þess að framlengja núverandi takmarkanir hafa reglur varðandi grímur verið hertar. Bretum ber nú að vera með grímur alls staðar innandyra á almannafæri. Eins og í söfnum, kvikmyndahúsum og bænahúsum.
Ráðherrann varaði þó við því að til greina kæmi að herða takmarkanir aftur á nýjan leik.
„Ég vil ekki þurfa að segja fólki að verja minni tíma með vinum sínum. En ef fólk hlýðir ekki reglunum og hagar sér skynsamlega, gætum við þurft að ganga lengra,“ sagði Johnson á upplýsingafundi í dag. Þá hvatti hann Breta til að ferðast innanlands í sumar.
Boris Johnson encourages people to still take staycations in the UK, despite increasing restrictions.
— SkyNews (@SkyNews) July 31, 2020
More here: https://t.co/j6kjF0M8Gi pic.twitter.com/6lSWswLkt0