Fundur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verið blásinn af. Þeir ætluðu að hittast í Washington-borg á fimmtudag til að ræða ferðabann sem Bandaríkjastjórn setti á Evrópulönd. Bandarísk stjórnvöld hafa nú aflýst öllum fundum af þessu tagi vegna bannsins.
Guðlaugur Þór sagði Mbl.is í gær að hann hafi upphaflega óskað eftir símafundi með Pompeo en honum hafi í staðinn verið boðinn fundur í Washington-borg. Eftir að sá fundur var blásinn af hafi hann þegar óskað eftir símafundi aftur.
Íslensk stjórnvöld komu á framfæri mótmælum sínum við ferðabanninu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um á miðvikudagskvöld. Það náði upphaflega til 26 Evrópulanda innan Schengen-svæðisins en undanskildi bandaríska ríkisborgara, þá sem hafa varanlegt dvalarleyfi og nánustu ættingja þeirra.
Bretland og Írland, sem voru upphaflega undanskilin banninu, bættust á lista Bandaríkjastjórnar yfir ríki sem ferðatakmarkanirnar gilda fyrir í gær.