Innlent

Vara við vatna­vöxtum og hættu á skriðu­föllum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Veðurhorfur á landinu á hádegi í dag.
Veðurhorfur á landinu á hádegi í dag. Veðurstofa Íslands/Skjáskot

Búast má við vestlægri eða breytilegri átt, 3 til 10 metrum á sekúndu í dag, en allt að 15 metrum á sekúndu með suðaustur- og austurströnd landsins. Þá verður rigning eða skúrir víðast hvar, en norðaustanlands á að stytta upp um hádegi. Hiti á bilinu 8 til 13 stig, en allt að 18 stig á Austurlandi.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að talsvert hafi rignt í nótt og geri enn sums staðar. Því megi búast við vatnavöxtum og aukinni hættu á skriðuföllum austan- og suðaustanlands þar sem úrkoman hefur verið hvað mest.

Á morgun má þá búast við suðvestanátt, 5 til 13 metrum á sekúndu og skúrum um vestanvert landið. Rigna á sunnan- og vestantil seint annað kvöld. Hiti á morgun verður á svipuðu bili og í dag, en bjart austantil og hiti um 13 til 18 stig að deginum.

Hér að neðan má sjá veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofunni:

Á laugardag: Suðvestan 5-13 m/s. Skúrir um vestanvert landið og hiti 8 til 13 stig. Fer að rigna sunnan- og vestantil seint um kvöldið. Bjart með köflum austantil og hiti 13 til 18 stig að deginum

Á sunnudag: Sunnan átt, 8-13 m/s. Víða rigning og hiti 9 til 15 stig, en úrkomulítið norðaustan- og austanlands og hiti að 18 stigum.

Á mánudag og þriðjudag: Sunnan átt, lengst af 5-10 m/s. Rigning með köfum sunnan- og vestantil og hiti 10 til 15 stig, en bjart með köflum á norðaustanverðu landinu og hiti að 20 stigum yfir daginn.

Á miðvikudag: Fremur hæg vestlæg átt og dálítil rigning framan af, en bjart veður vestanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á fimmtudag: Útlit fyrir suðlæga eða breytileg átt og rigningu um vestanvert landið, en bjart, þurrt og hlýtt veður norðan- og austantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×