Yfirmaður einnar leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna telur að kínversk stjórnvöld vonist til þess að Donald Trump nái ekki endurkjöri sem forseti í haust og reynir að beita áhrifum sínum í aðdraganda kosninga í haust. Rússa telur hann beita sér til að koma höggi á Joe Biden, væntanlegan frambjóðanda Demókrataflokksins.
Þetta kom fram í yfirlýsingu frá William Evanina, forstjóra Gagnnjósna- og öryggismiðstöðvar Bandaríkjanna, um tilraunir erlendra ríkja til þess að hafa áhrifa á kosningarnar í nóvember, að sögn Washington Post.
Kínversk stjórnvöld telja Trump „óútreiknanlegan“ og vilja heldur að hann verði ekki áfram forseti eftir kosningarnar. Evanina segir þau þrýsta á stjórnmálamenn sem þau telja vinna gegn hagsmunum sínum og verjast gagnrýni á Kína.
Trump hefur eldað grátt silfur saman við stjórnvöld í Beijing. Viðskiptastríð upphófst þegar Trump skellti verndartollum á kínverskar innflutningsvörur og Kínverjar svöruðu í sömum mynt. Þá hefur ríkisstjórn Trump beitt sér fyrir því að vestræn ríki úthýsi kínverska tæknifyrirtækinu Huawei úr 5G-væðingu sinni. Ríkin tvö ráku ræðismenn úr landi á dögunum.
JUST IN: In new statement, top counterintel official Evanina confirms what @kyledcheney and I reported last week: Intel officials believe that Russia is using a range of measures to primarily denigrate former Vice President Biden in runup to election. https://t.co/I11E6frl1D pic.twitter.com/t3EOOqYubU
— Natasha Bertrand (@NatashaBertrand) August 7, 2020
Rússar rægja Biden
Varðandi Rússa, sem reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 til að hjálpa Trump að ná kjöri, telur Evanina að þeir vilji nú vinna gegn Biden, fyrrverandi varaforseta, sem mælist nú með afgerandi forskot á Trump í skoðanakönnunum á landsvísu.
„Við teljum að Rússland noti fjölda leiða til að fyrst og fremst rægja Biden varaforseta og það sem það lítur á sem „ráðandi öfl“ sem eru andsnúin Rússlandi,“ segir í yfirlýsingu Evanina.
Ástæðan fyrir andstöðu stjórnvalda í Kreml við Biden er meðal annars talin gagnrýni hans á þau þegar hann var varaforseti Baracks Obama og aðild hans að stefnu þeirrar ríkisstjórnar gagnvart Úkraínu.
Rússar háðu stórfelldan upplýsingahernað fyrir forsetakosningarnar árið 2016 sem byggðist meðal annars á tölvuinnbrotum í tölvupósta Demókrataflokksins sem var lekið í gegnum vefsíðuna Wikileaks.
Íranar eru einnig sagðir vinna gegn bandarískum stofunum og Trump forseta. Stjórnvöld í Teheran eru talin reyna að sundra Bandaríkjamönnum fyrir kosningarnar. Evanina telur Írana beina kröftum sínum að áróðri og upplýsingafalsi á samfélagsmiðlum. Þeir óttist að verði Trump endurkjörin haldi harðlínustefna Bandaríkjastjórnar gagnvart þeim áfram, að því er AP-fréttastofan segir.
Trump sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran árið 2018 og lagði aftur á viðskiptaþvinganir sem höfðu verið afnumndar með honum. Þá felldi Bandaríkjaher yfirmann sérveitar íranska byltingarvarðarins fyrr á þessu ári.