Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun á næstunni senda ráðherrum í ríkisstjórn sinni skýr skilaboð um að þeir eigi að beina öllum sínum kröftum að undirbúningi fyrir hvað gerist eftir Bretland að ríkið yfirgefur ESB, ella verði þeir reknir.
Forsætisráðuneytið hefur staðfest að í næsta mánuði verði hrist upp í ríkisstjórninni. Guardian greinir frá því að einn nánasti ráðgjafi Johnson muni á næstunni hafa samband við ráðherrana í ríkisstjórninni.
Muni hann greina þeim frá því að þegar ákveðið verði hvaða ráðherrar verði áfram í ríkisstjórninni verði helst horft til þess hvaða ráðherrar hafi unnið ötullega að því að framfylgja stefnu Johnson.
Þannig er þess krafist að ráðherrarnir „skili sínu“ í stað þess að „koma fram í sjónvarpsþáttum“ eða ræða við fjölmiðla um hitt og þetta.
Í frétt Guardiansegir að með þessu muni Johnson senda ráðherrunum skýr skilaboð um hvað þeir þurfi að gera vilji þeir áfram sitja í ríkisstjórninni.
Þar kemur einnig fram að Johnson hafi ákveðið að skera niður heimsóknir til annarra ríkja til þess að sýna gott fordæmi. Hefur hann skipað embættismönnum sínum að gera slíkt hið sama svo sem mestur kraftur fari í það að undirbúa Bretland undir hvað gerist eftir að Bretland yfirgefur ESB.
Er Johnson til að mynda sagður krefjast þess að viðræður við Bandaríkin um fríverslunarsamning hefjist á sama tíma og viðræður við ESB um framtíðarsamband Bretlands og sambandsins.
Stefnt er að útgöngu Bretlands úr ESB þann 31. janúar næstkomandi.

