Aðstæður á Keflavíkurflugvelli eru erfiðar þessa stundina vegna veðurs. Flugi í dag hefur jafnan seinkað og neyddist Icelandair til þess að aflýsa flugi til Orlando vegna aðstæðna.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við Vísi að ekki væri unnt að þjónusta vélar eins og er en nú klukkan 18:30 tók Isavia landgöngubrýr úr notkun vegna veðursins.
Farþegar í Kaupmannahafnarflugi neyðast því til að sitja sem fastast í sætum sínum þangað við að veður lægir og hægt verður að þjónusta vélarnar að nýju. Óvíst er hvenær það verði.
Á vef Isavia má sjá að komutímum flestra véla á leið til landsins hefur verið seinkað.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins er einn þeirra farþega sem sitja fastir í flugvél, á Facebook síðu sinni segist hann hafa verið á leið frá Tenerife til Íslands með viðkomu í Lundúnum. Tólf tímar séu liðnir frá því að farið var um borð og ekki sé ætur biti í vélinni.
Landgöngubrýr teknar úr notkun í Keflavík vegna veðurs
