Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg spilar ekki meira á þessu tímabil eftir að hafa meiðst illa á hné.
Ada Hegerberg, sem skoraði þrennu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og var kosin besta knattspyrnukona heims árið 2018, sleit krossband í hægra hné á æfingu með félagi sínu.
„Þetta er bakslag fyrir mig en ég ætla að komast í gegnum þetta af öllu hjarta og með allri orku minni,“ sagði Ada Hegerberg og bætti við: „Þið eigið eftir að sjá mitt besta og ég kem fljótt aftur,“ sagði Ada Hegerberg en hún er 24 ára gömul.
Lyon striker Ada Hegerberg is set to miss at least the remainder of this season through injury.
— BBC Sport (@BBCSport) January 29, 2020
Full story
https://t.co/Tl3lSirecQpic.twitter.com/CXLlxpIHEx
Ada Hegerberg hefur unnið Meistaradeild Evrópu fjögur ár í röð með Lyon og hún hefur unnið þrettán stóra titla á fyrstu fimm tímabilum sínum með franska liðinu þar sem hún hefur skorað 216 mörk í 177 leikjum.
Lyon er á góðri leið með að vinna fleiri titla á þessu tímabili en félagið er með þriggja stiga forskot á Paris Saint Germain í frönsku deildinni og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Ada Hegerberg hefur skorað mest allra í sögu Meistaradeildarinnar og 9 af 49 mörkum hennar í Meistaradeildinni hafa komið á þessu tímabili. Hún er með 14 mörk í 12 deildarleikjum og alls 23 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum.
Þessi meiðsli hafa ekki áhrif á norska landsliðið því Ada Hegerberg hefur ekki gefið kost á sér í landsliðið síðan árið 2017. Hún skoraði 38 mörk fyrir Noreg frá 2011 til 2017.