24 sýni hafa verið rannsökuð af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í tengslum við Covid-19 kórónaveiruna. Hafa þau öll reynst neikvæð og hefur enginn einstaklingur greinst með veiruna hér á landi.
Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra vegna Covid-19 veirunnar en óvissustig er í gildi hér á landi vegna veirunnar. Haldinn var stöðufundur í morgun í samhæfingarmiðstöðunni í Skógarhlíð þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir fór yfir stöðu mála. Í máli hans kom fram að mörgum spurningum væri enn ósvarað varðandi faraldsfræði veirunnar.
Fyrirliggjandi upplýsingar bendi þó til þess að nýjum tilfellum hafi fækkað á undanförnum dögum og útbreiðsla utan Kína, þar sem veiran braust fyrst út, hafi verið hæg.
Enn er gert ráð fyrir að veiran berist hingað til lands en áfram er unnið að því að skerpa viðbúnað innanlands. Til að mynda vinnur vinnuhópur ríkislögreglustjóra að greiningu á hugsanlegum aðgerðum sem miða að því að stemma stigu við komu erlendra ferðamanna frá áhættusvæðum.
Alls hafa 71.333 einstaklingar sýkst af veirunni og 1.775 hafa látist, langflestir í Kína en fjögur dauðsföll hafa verið utan Kína. Eitt í Taívan, eitt á Filippseyjum, eitt í Japan og eitt í Frakklandi.
