Lögreglan í Frakklandi hefur handtekið rússneska listamanninn Petr Pavlensky, manninn sem sagður er hafa lekið kynlífsmyndbandi af Benjamin Griveaux, sem var borgarstjóraefni flokks forsætisráðherrans Emmanuel Macron í París.
Griveaux dró framboð sitt til baka í vikunni eftir að fregnir bárust um kynlífsmyndband sem var lekið á netið. Sagðist hann hafa gert að vegna „auðvirðilegra árása“ á einkalíf hans, líkt og það var orðað í yfirlýsingu frá frambjóðandanum fyrrverandi.
AP-fréttastofan sagði í vikunni að Pavlensky, rússneskur listamaður sem sé þekktur fyrir pólitíska gjörninga, hafi lýst yfir ábyrgð á samfélagsmiðlafærslum sem leiddu til afsagnar Griveaux. Myndband sem Pavlensky sagðist hafa dreift og er sagt hafa sýnt Griveaux í kynlífsstellingum, dreifðist hratt út á samfélagsmiðlum í Frakklandi.
Samkvæmt fréttum franskra miðla er handtaka Pavlensky þó ótengd myndbandinu en hann er sagður hafa verið handtekinn í tengslum við slagsmál á gamlársag, þar sem vopnum er sagt hafa verið beitt.
Stjórnmálamenn úr nær öllum stjórnmálaflokkum í Frakklandi hafa fordæmt birtingu myndbandsins af Griveaux em Pavlensky sagðist hafa birt myndbandið til að afhjúpa hræsni Grieavaux.
Lögregla rannsakar málið.
