Innlent

Raf­magni sló út hjá Norður­áli og Elkem á Grundar­tanga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.
Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.

Rafmagni sló út í báðum kerskálum álvers Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði í skamma stund nú í kvöld. Enn er unnið að því að koma fullum straumi á að nýju. Þá varð einnig straumlaust í kísilveri Elkem á Grundartanga. Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.

Sólveig Kr. Bergmann upplýsingafulltrúi Norðuráls segir í samtali við Vísi að Norðurál, ásamt Landsneti, reyni nú að koma rafmagni aftur í fyrra horf. Það hafði ekki tekist enn um klukkan sjö.

Sólveig segir að rafmagn hafi aðeins verið úti í skamman tíma og því sé tjón óverulegt. Ef straumlaust hefði verið í langan tíma hefði tjón hins vegar getað hlaupið á milljörðum.

Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að högg hafi komið á kerfið, líklegast vegna seltu, í tengivirki á Brennimel. Þessi vandræði hafi orðið þess valdandi að straumlaust varð hjá Elkem og Norðuráli. Verið er að vinna í að koma kerfinu upp aftur og skoða hvort þurfi að skola tengivirkið.

Rafmagnstruflanir hafa verið víða á landinu í dag vegna óveðursins sem gekk yfir. Selta í tengivirki Landsnets í Breiðadal varð til þess að Ísafjarðarlína 1 datt út um klukkan 17:30. Varaafl er komið í gang á Flateyri en straumleysis mun gæta í sveitinni í Önundarfirði og hluta Eyrarinnar.

Uppfært klukkan 21:05:

Í færslu á Facebook-síðu Landsnets segir að Norðurál og Elkem séu að keyra aftur upp rekstur eftir seltuhreinsun. Slökkvilið Akraness fór að tengivirkinu á Klafastöðum til að skola af því salt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×