Aldrei hafa færri bandarískir sjónvarpsáhorfendur stillt inn á beina útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar ABC frá Óskarsverðlaununum en í ár.
Alls horfðu 23,6 milljónir manna á verðlaunahátíðina sem fram fór á sunnudaginn. Þar með var metið frá árinu 2018 um fæsta áhorfendur á Óskarinn slegið en það ár horfðu 26,5 milljón áhorfenda á beina útsendingu frá verðlaununum.
Áhorfið í fyrra fór upp á milli ára en þá horfðu 29,6 milljónir manna á hátíðina í sjónvarpi. Þá var það nýmæli að enginn sérstakur kynnir var á hátíðinni og var það sama uppi á teningnum í ár.
Það skilaði sér hins vegar ekki í fleiri áhorfendum. Það gerðu heldur ekki tilraunir til þess að bjóða upp á fjölbreyttari dagskrá en áður, til dæmis með opnunaratriðinu og óvæntu tónlistaratriði Eminem, að því er fram kemur í umfjöllun Indiewire um málið.
Óskarsverðlaunin voru í aðdraganda verðlaunahátíðarinnar gagnrýnd mikið fyrir einmitt skort á fjölbreytileika.
Gagnrýnin beindist ekki hvað síst að tilnefningum í leikara- og leikkonuflokkum þar sem allir tilnefndir voru hvítir fyrir utan Cynthiu Erivo, og tilnefningum í leikstjóraflokknum þar sem engin kona hlaut tilnefningu.
Burtséð þó frá áhorfstölum og skorti á fjölbreytileika má nánast fullyrða að 92. Óskarsverðlaunin verði lengi í minnum höfð hjá íslensku þjóðinni þar sem Hildur Guðnadóttir, tónskáld, varð á sunnudaginn fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun. Hún hlaut styttuna góðu fyrir tónlist sína við kvikmyndina Joker.
Aldrei minna áhorf á Óskarinn í bandarísku sjónvarpi
