Innlent

Hægt að fara með rusl til Sorpu og nýta önnur úrræði

Samúel Karl Ólason skrifar
Ragna sagði eitthvað hafa borið á því að fólk sé farið að flytja sorp sjálft á endurvinnslustöðvarnar og að stærri húsfélög hafi fengið menn á sendibílum til að flytja sorp á móttökustöðina í Gufunesi.
Ragna sagði eitthvað hafa borið á því að fólk sé farið að flytja sorp sjálft á endurvinnslustöðvarnar og að stærri húsfélög hafi fengið menn á sendibílum til að flytja sorp á móttökustöðina í Gufunesi. Vísir/Vilhelm

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að flokka sem mest og setja það sem ekki er hægt að flokka í tunnur. Flokkanlega sorpið má fara með á grenndargáma eða einhverjar af sex endurvinnslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Að nota önnur úrræði til að nýta öskutunnurnar sem best á meðan sorphirðumenn eru í verkfalli. Sömuleiðis er hægt að fara með tiltekið magn af sorpi beint til Sorpu. 

Þetta sagði Ragna I. Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar Sorpu, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Ragna sagði eitthvað hafa borið á því að fólk sé farið að flytja sorp sjálft á endurvinnslustöðvarnar og að stærri húsfélög hafi fengið menn á sendibílum til að flytja sorp á móttökustöðina í Gufunesi. Það sé ekki illa séð enda hluti af starfi Sorpu.

„Þú sem einstaklingur getur sett ruslið þitt í poka og nýtt þér það að koma inn á endurvinnslustöðvarnar með allt að tvo rúmmetra. Það er ekki tekið gjald fyrir það,“ sagði Ragna.

Hún ítrekaði þó að Sorpa sækir ekki rusl og að fólk hafi verið að hringja og spyrja út í það.

„Á þessum tíma verðum við bara að bjarga okkur sjálf. Því miður. Eða nota þjónustu sendiferðabíla eða þessháttar.“

Ragna segir að verið sé að skoða viðbragðsáætlun vegna deilunnar og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Bæði varðandi það ef verkfallið heldur áfram og hvað þarf að gera ef því ljúki og mikið magn sorps verður flutt til stöðva Sorpu.

Hlusta má á Rögnu í Reykjavík síðdegis hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×