Karlmaður sem grunaður er um tilraun til vopnaðs ráns í skartgripaverslun í Reykjanesbæ í vikunni hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri í Reykjanesbæ, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Maðurinn réðist vopnaður öxi inn í úrabúðina Georg V Hannah á fimmtudag, ógnaði starfsfólki og braut innanstokksmuni.
„Sem betur fer þá meiddist enginn og maðurinn náðist fljótlega eftir að þetta gerðist en það urðu talsvert miklar skemmdir í versluninni,“ sagði Ólafur við fréttastofu á fimmtudag.
Sjá einnig: Vörðust vopnaða manninum með ryksuguröri
Georg Viðar Hannah, úrsmíðameistari, greip til ryksugurörs þegar karlmaðurinn sem var í annarlegu ástandi réðst inn með látum í verslunina vopnaður öxi.
Georg Viðar, sem rekur úrabúðina ásamt syni sínum, var á staðnum ásamt tveimur til viðbótar þegar atvikið átti sér stað.
Ræninginn braut allt og bramlaði í versluninni og eru glerborð mölbrotin sem hafa úr og annan dýran búnað til sýnis. Hann mun vera ungur karlmaður, líklega á þrítugsaldri.
„Hann lamdi bara endalaust með öxinni í allt. Þetta var rosalegt. Við gátum ekkert farið nær honum því hann hélt þá exinni í áttina að okkur,“ sagði Georg Viðar í samtali við Vísi í gær.