Erlent

Fjöldi ríkja setur á samkomubann vegna veirunnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjöldi Evrópuríkja ræðir nú um eða hefur sett á samkomubann vegna áframhaldandi útbreiðslu nýju kórónuveirunnar. Ástandið er verst á Ítalíu, þar sem fleiri en sjö þúsund hafa smitast og sextán milljónir eru í sóttkví. Stjórnvöld hafa bannað fjöldasamkomur, lokað skólum, kvikmyndahúsum, söfnum og ýmsu öðru og sett miklar takmarkanir á starfsemi veitingastaða.

Í Frakklandi hefur verið sett bann við viðburðum með þúsund gesti eða fleiri og í Sviss og Rúmeníu sömuleiðis. Stjórnvöld í Þýskalandi og Danmörku hafa svo hvatt landsmenn til að aflýsa slíkum samkomum.

Veiran hefur einnig áhrif á markaði en þar blöstu rauðar tölur við víðast hvar í heiminum í dag. FTSE-vísitalan í Lundúnum fór niður um sex prósent og þýska DAX-vísitalan sömuleiðis. Kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum var sjálfkrafa lokað í korter eftir sjö prósenta dýfu en tók örlítið við sér þegar opnað var á ný. Þar í landi er talað um einn versta daginn frá hruninu 2008.

Þá lækkaði verð á hráolíu um átján prósent eftir að Rússar neituðu að fylgja samtökum olíuútflutningslanda í að draga úr framleiðslu og Sádi-Arabar hófu verðstríð til að þrýsta á Rússa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×