FH vann þrefalt eftir jafna keppni við ÍR í bikarkeppninni í frjálsum íþróttum innanhúss í Kaplakrika í gær.
A-lið FH hlaut samtals 107 stig í stigakeppninni, fimm stigum meira en A-lið ÍR. Í bikarkeppninni fást 8 stig fyrir sigur í hverri grein, 7 stig fyrir 2. sæti og svo framvegis.
FH hlaut 58 stig í kvennakeppninni, aðeins tveimur stigum meira en ÍR, og 49 stig í karlakeppninni eða þremur stigum meira en ÍR. Breiðablik varð í 3. sæti í bæði keppni karla og kvenna, og því einnig samanlagt.
Kolbeinn Höður Gunnarsson kom frá Bandaríkjunum til að keppa á mótinu en hann setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi innanhúss vestanhafs á dögunum. Kolbeinn vann 60 metra spretthlaup á 6,93 sekúndum og var einnig í sigursveit FH í 4x200 metra boðhlaupi.
Ólympíufararnir Guðni Valur Guðnason og Aníta Hinriksdóttir voru einnig á meðal keppenda. Aníta, sem hefur átt við meiðsli að stríða síðustu misseri, vann öruggan sigur í 1.500 metra hlaupi á 4:48,22 mínútum. Guðni vann svo kúluvarp með 18,22 metra kasti.
Hægt er að sjá öll úrslit mótsins með því að smella hér.