Ágætlega gengur að koma Íslendingum sem staddir eru erlendis til landsins. Um 5400 manns sem eru á skrá hjá borgaraþjónustunni eru enn staddir erlendis.
Ríki um allan heim herða nú aðgerðir sínar vegna Kórónuveirunnar. Stjórnvöld í Þýskalandi tilkynntu í dag að þau loki landamærum sínum að Frakklandi, Sviss og Austurríki að stærstum hluta á morgun.
Íslensk stjórnvöld hvetja Íslendinga til að huga að heimför og takmarka ferðalög. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að ágætlega gangi að koma Íslendingum hingað til landsins.
Sólarhringsvakt er hjá borgaraþjónustunni og nóg að gera.
„Í morgun þá höfðum við svarað frá fimm í gær um fjögur hundruð erindum þannig að ég á von á því að það hafi aukist mjög í dag. Eins og þú sérð er mjög mikið að gera hér og við eigum ekki von á því að það breytist,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Hann segir lykilatriði að Íslendingar erlendis láti vita af sér og skrái sig inn í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins.
„Það eru um 6.600 manns síðast þegar ég vissi á skrá. Af þeim eru 1.200 komnir heim þannig aðþað eru 5.400 sem eru í útlöndum enn og hafa skráð sig,“ sagði Guðlaugur.
Þá hefur ákvörðun danskra yfirvalda um að loka landamærum Danmerkur verið gagnrýnd.
„Við erum búin að vera í samskiptum við Dani og aðrar Norðurlandaþjóðir og ég var ekki sáttur með það, og kom því á framfræri að við fengum ekki að vita þetta áður en þeir fóru út með þetta í fjölmiðla. Ég hef verið í mjög góðu samskipti við danska kollega minn og við höfum verið að leggja á ráðin, hann er nú í forystu í Norðurlandasamstarfinu, um það hvernig er hægt að virkja best það samstarf. Þannig að t.d. samskiptin á milli borgaraþjónustunnar verði eins skilvirk og hægt er. Það sem við getum unnið saman til að hjálpa þegnum okkar landa munum við gera,“ sagði Guðlaugur.
