Í sjónvarpsþættinum Tala saman, sem er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 í kvöld, verður sýnt síðasta viðtalið sem tekið var við Gísla Rúnar Jónsson heitinn, leikara, leikstjóra og rithöfund.
Gísli stýrði skemmtiþættinum Gott kvöld með Gísla Rúnari á Stöð 2 árið 1996. Þættinum fylgdi heilmikið umstang og lýsir Gísli því meðal annars hvernig hann var búinn að undirbúa hvern einasta þátt í þaula þar sem allt var tekið upp í beinni útsendingu.
Jóhann Kristófer og Lóa Björk stýra Tala saman en Saga Garðarsdóttir er einnig gestur þáttarins í kvöld.
Upplegg þáttarins Tala saman er það að Jói og Lóa eru haldin miklum metnaði og eldmóði og setja sér það markmið að gera besta sjónvarpsþátt í heimi.

Til að ná markmiðum sínum fá þau til sín reynslubolta úr faginu til að læra af og þiggja góð ráð. Meðal annars verður horft á klippur úr sjónvarpssögu okkar Íslendinga.
Þau ætla síðan að senda lokaþáttinn út í beinni útsendingu en stóra spurningin er hvort þeim takist ætlunarverk sitt með allan þennan lærdóm í farteskinu og viljann að vopni.