Stjörnuparið Katy Perry og Orlando Bloom hafa eignast dóttur sem hefur fengið nafnið Daisy Dove Bloom. Þetta er fyrsta barn söngkonunnar en Bloom á níu ára son með fyrirsætunni Miranda Kerr. Það sem var óvenjulegt við fæðingartilkynningunna þeirra var að þau sögðu ekki sjálf frá, heldur voru það samtökin UNICEF.
Perry og Bloom eru bæði sendiherrar UNICEF og nýttu þau þetta tækifæri til þess að láta gott af sér leiða. UNICEF birti fallega mynd og tilkynnti að Daisy Dove væri komin í heiminn. Þetta er fyrsta myndin sem er birt opinberlega síðan stúlkan kom í heiminn.
Ekki fylgdi með hver fæðingardagurinn var en þar var tekið fram að fæðingin hafi verið örugg og að barnið væri heilbrigt. Ekki allir hefðu samt þau forréttindi. Foreldrarnir settu því af stað sérstaka söfnun í nafni dótturinnar og hvetja alla til þess að styrkja starf UNICEF og hjálpa þar með börnum sem þurfa á því að halda.
Parið trúlofaði sig á síðasta ári og tilkynnti svo nokkrum mánuðum síðar að þau ættu von á barni. Það leyndarmál var afhjúpað í tónlistarmyndbandi söngkonunnar. Þau velja því óhefðbundnar leiðir til þess að deila gleðifréttum með aðdáendum. Myndina sem UNICEF birti má sjá hér fyrir neðan.