Utanríkisráðherra segir Íslendinga hafa verið sofandi í netöryggismálum. En þingmaður Pírata vakti athygli á því á Alþingi í dag að Danir hefðu veitt Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna aðgang að sæstrengjum sem tengdust öllum netsamskiptum Íslendinga.
Smári McCarthy þingmaður Pírata sagði í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að þessar nýlegu upplýsingar um samantekin ráð tveggja vinaþjóða væru óþægilegar fréttir þar sem málið snerti Íslendinga beint.

„Öll fjarskipti Íslendinga fara í gegnum þrjá sæstrengi sem allir liggja í gegnum danskt yfirráðasvæði. Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.
Bandaríkjamenn hafi sýnt að þeir væru tilbúnir til að njósna um vini sína eins og kanslara Þýskalands.

„Þannig að mér finnst eðlilegt að spyrja hæstvirtan utanríkisráðherra: Hefur hann rætt við dönsk eða bandarísk stjórnvöld um þessar tilteknu njósnir. Hafa bandarísk stjórnvöld farið fram á að fá að njósna hér á landi með beinum hætti eins og þau hafa gert í Danmörku. Og hefur hann leitast eftir upplýsingum um þessa áhættu og hvernig hægt sé að meta hana til að koma í veg fyrir hana,“ spurði Smári.
„Þetta einstaka mál sem háttvirtur þingmaður nefnir hér er því miður ekkert einsdæmi. Maður þarf að fá betri upplýsigar hvað það varðar. Ég þarf ekki að taka fram að það hefur enginn komið til mín, hvorki frá því landi sem háttvirtur þingmaður nefndi eða öðrum, og beðið mig um að fá að njósna um Íslendinga. Þa hefur ekki dottið inn hjá mér,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Framundan væru fundir með utanríkisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þar sem þessi mál verði rædd. Íslendingar hafi ekki verið nógu vakandi í þessum málaflokki sem ætti að vera í forgangi.
„Og ég hef vakið athygli á því hvað eftir annað að þetta eru mikilvæg mál. Öryggismál eru ekki bara þessi hefðbundnu öryggismál sem við þekkjum síðustu áratugi. Heimurinn er að breytast. Tækninni hefur fleygt mjög fram og við erum að sjá ógnir sem við höfum ekki séð áður,“ sagði Guðlaugur Þór.