Anníe Mist Þórisdóttir stoppar stutt við í íþróttamannaráði CrossFit samtakanna því hún hefur gefið það út að hún ætli að byrja aftur að keppa á árinu 2021.
Morning Chalk Up fjallaði um yfirlýsingu Anníe Mistar og velti fyrir sér framhaldinu hjá íslensku CrossFit goðsögninni.
„Það var aldrei spurning um hvort heldur hvenær Þórisdóttir myndi snúa aftur í keppni,“ segir í greininni á Morning Chalk Up.
Anníe Mist Þórisdóttir eignaðist Freyju Mist þann 11. ágúst síðastliðinn þannig að yfirlýsingum um endurkomuna kom innan við mánuði síðar.
„Stóra spurningin var því hversu langt frí hún myndi taka sér eftir fæðinguna áður en hún færi að undirbúa sig fyrir keppni. Svarið er ekki lengi,“ segir í greininni á Morning Chalk Up.
Anníe Mist fylgir þar með í fótspor Ástralans Köru Saunders sem tryggði sér sæti á heimsleikunum aðeins fimm mánuðum eftir að hún eignaðist sína dóttur. Kara Saunders náði tólfta sæti í „The Open“ en Sara Sigmundsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir voru þar í efstu tveimur sætunum.
Anníe Mist Þórisdóttir er 31 árs gömul, hefur tvisvar orðið heimsmeistari í CrossFit og fimm sinnum komist á verðlaunapall á heimsleikunum. Nú ætlar hún sér að tryggja sér sæti á tólftu heimsleikunum á ferlinum sem yrði magnaður árangur.
„Annie Mist verður í AAC ráðinu í stuttan tíma og það er ekki vitað hver áhrif hennar eru þar. Hins vegar mun missir ráðsins þýða mögulega að samtök atvinnuíþróttafólks í hreysti, Professional Fitness Athlete Associations, muni græða. Í færslu sinni þá minntist Anníe á PFAA og að hún myndi mögulega hjálpa þeim samtökum í samskiptunum við höfuðstöðvar CrossFit,“ segir í greininni á Morning Chalk Up.
Þar kemur fram að þeir sem eru í íþróttamannaráðinu mega ekki vera að keppa á sama tíma. Það er náttúrulega aðalástæðan fyrir því að Anníe Mist kveður svo snemma. Hún ætlar sér enn að bæta við stórglæsilega ferilskrá sína.
„Með því að hafa eina stærstu goðsögn íþróttarinnar með sér í liði, með sambönd báðum megin við borðið, þá ætti það að hjálpa enn frekar að þróa og stækka sportið,“ segir í greininni á Morning Chalk Up.