Forstjóri Icelandair segir mikilvægt að óvissa í rekstri félagsins vegna kórónuveirufaraldursins dragist ekki á langinn. Félagið reikni með að byggja leiðarkerfið hægt upp frá næsta vori og næsta sumar verði ekki flogið nema tæplega helmingur þess sem gert var árið 2015.
Hluthafafundur Icelandair Group gaf stjórn félagsins heimild í gær til að auka hlutafé Icelandair um allt að 23 milljarða og áskrift til hluthafa um allt að 5,7 milljarða á næstu tveimur árum að auki. Hlutafjárútboðið hefst á fimmtudag í næstu viku og lýkur í lok viðskipta á föstudag.

Eitt af skilyrðum Alþingis fyrir ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair er að félagið greiði ekki út arð á meðan ábyrgðirnar eru í gildi og lán sem hugsanlega verði tekin út á þær eru ógreidd. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir slík lán vera til þrautavara.
„Við gerum ráð fyrir því í þessari grunnsviðsmynd sem við vorum að fara yfir hér áðan að við munum ekki draga á lánalínur sem ríkissjóður er að ábyrgjast. Erum að gera ráð fyrir að vera komin á svipaðan stað í framleiðslunni 2024 og við vorum á árunum 2018 og 2019 og að félagið verði farið að skila hagnaði árið 2022,“ segir forstjórinn.

Félagið gæti því hugsanlega farið að greiða út arð eftir fjögur ár eða 2024. Reiknað sé með hægum bata í rekstrinum frá vormánuðum næsta árs.
„Við erum ekki að gera ráð fyrir að næsta sumar verði stórt í okkar rekstri. Gerum ráð fyrir að fljúga tæplega helminginn af því sem við gerðum árið 2015 næsta sumar. Þannig að við byrjum á að byggja leiðarkerfið aftur upp næsta vor hægt og rólega. En það er mikilvægt að þessi óvissa dragist ekki mjög á langinn og eftirspurn fari að taka við sér.“
Og að Bandaríkin opni?
„Að Bandaríkin opni. Það er mikilvægt fyrir okkar tengimódel sem er mikilvægur þáttur í okkar viðskiptalíkani,“ segir Bogi Nils Bogason.