Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu var útskrifaður af sjúkrahúsi þar sem hann var til meðferðar vegna Covid-19. Hann lýsir lífsreynslunni sem „hættulegustu áskorun“ lífs síns og hvetur fólk til þess að taka faraldrinum alvarlega.
Talið er að Berlusconi, sem er 83 ára gamall, hafi smitast af nýju afbrigði kórónuveiru þegar hann var í fríi á sveitasetri sínu á Sardiníu. Hann var lagður inn á sjúkrahús í Mílanó með slæma lungnabólgu 3. september. Læknar töldu Berslusconi í sérstökum áhættuhópi sökum aldurs og hjartavandamála.
„Ég sagði við sjálfan mig ánægður: „Þú komst aftur upp með það“,“ sagði Berlusconi við blaðamenn þegar hann gekk út af San Raffaele-sjúkrahúsinu í dag að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir honum.
Berlusconi verður áfram í einangrun í nokkra daga á setri sínu utan við Mílanó. Hvatti hann landa sína til þess að taka veirunni alvarlega.
„Hvert og eitt okkar er útsett fyrir þeirri hættu að smita aðra. Ég ítreka hvatningu mína um að allir sýni hámarksábyrgð,“ sagði forsætisráðherrann fyrrverandi sem stýrir enn miðhægriflokknum Áfram Ítalía.