Mótmælendur í höfuðborg Kirgistans, Bishkek, réðust í morgun inn í þinghús landsins. Fólkið var að mótmæla nýyfirstöðnum þingkosningum í landinu og krefjast þess að þær yrðu lýstar ógildar en margir hafa sakað ráðandi öfl í landinu um kosningasvindl.
BBC segir frá því að myndir hafi birst sem virðast sýna mótmælendur inni á skrifstofu forseta landsins, Sooronbai Jeenbekov.
Einnig kom til mótmæla í gær en þá rak lögregla fólkið á brott með harðri hendi og beitti táragasi og öflugum vatnsbyssum. Í morgun tókst fólkinu hins vegar að komast inn í þinghúsið og má sjá á myndum að hluti þess brennur.

Jeenbekov forseti hefur biðlað til almennings um að stilla sig og segir hann andstæðinga sína í pólitík vera að kynda undir óeirðum í landinu til að ná völdum.
Hann hefur einnig sagt koma til greina að ógilda kosningarnar en í þeim var settur upp ákveðinn þröskuldur sem varð til þess að aðeins fjórir flokkar af sextán sem voru í framboði komust inn á þing. Af þeim fjórum eru þrír hliðhollir forsetanum.
Talsmaður heilbrigðisyfirvalda í landinu segir að einn hafi látist og nærri sex hundruð slasast í óeirðum síðustu daga.