Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar klukkan þrjú í dag.
Fundurinn verður í beinni útsendingu hér.
Fundirnir eru yfirleitt haldnir á mánudögum og fimmtudögum en nú hefur verið boðar til fundar síðdegis í dag þar sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi.
Þórólfur hyggst leggja til við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að aðgerðir vegna kórónuveirufarldursins verði hertar á höfuðborgarsvæðinu frá því sem nú er.
Níutíu og níu manns greindust innanlands með kórónuveiruna í gær. Þar af voru 59 í sóttkví. Þá greindist einn með veiruna á landamærunum. Ekki hafa fleiri greinst með kórónuveiruna hér á landi í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Mesti fjöldinn hingað til var 75 manns þann 18. september.
747 manns eru nú í einangrun, samanborið við 670 í gær. Þá eru 3.571 í sóttkví í dag, samanborið við 2.391 í gær.
Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu og textalýsingu hér á Vísi sem og Stöð 2 Vísi klukkan 15 í dag.