Fótbolti

Modric segir að Bale hafi bara verið feiminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale og Luka Modric unnu Meistaradeildina fjórum sinnum saman hjá Real Madrid.
Gareth Bale og Luka Modric unnu Meistaradeildina fjórum sinnum saman hjá Real Madrid. Getty/Helios de la Rubia

Króatinn Luka Modric kom Gareth Bale til varnar í nýju viðtali og sagði þar líka frá því að Bale hafi reynt að nálgast liðsfélaga sína í Real Madrid með því að tala við þá á spænsku.

Gareth Bale er laus frá Real Madrid í bili en spænska félagið lánaði hann til Tottenham á dögunum. Zinedane Zidane vildi ekki nota þennan frábæra leikmann.

Luka Modric hefur verið liðsfélagi Gareth Bale hjá bæði Tottenham Hotspur og Real Madrid. Hann þekkir því Walesverjann vel.

Real Madrid keypti Gareth Bale frá Tottenham fyrir 86 milljónir punda árið 2013 og Bale hefur unnið þrettán titla með félaginu þar af Meistaradeildina fjórum sinnum og spænsku deildina tvisvar.

„Ég er búinn að vera hér lengi með Bale. Hann er stórbrotinn náungi en hann er líka feiminn. Pressan er að dæma hann fyrir síðustu ár en menn mega ekki gleyma því sem hann hefur gefið félaginu,“ sagði Luka Modric við El Partidazo del Cope.

„Það hafa ekki verið nein vandamál hjá honum í klefanum. Hann talaði spænsku við okkur,“ sagði Modric

„Fólk er svo fljótt að gleyma því sem Bale hefur gert. Gareth var ekkert sérlega félagslyndur en hann var fínn í klefanum. Mér þykir það leitt hversu margir eru búnir að gleyma því sem hann gerði hér,“ sagði Luka Modric.

Gareth Bale hefur talað um það sjálfur að hann hafi ekki verið fyrir sviðsljósið og að hann hafi bara viljað spila fótbolta. Að hans mati var það kannski sú staðreynd að hann vildi ekki athyglina sem átti þátt í því að spænska pressan snerist gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×