Brasilíska knattspyrnukonan Marta fær styttu af sér fyrir utan safnið um sögu brasilísku landsliðanna í fótbolta.
Ein af þeim sem er mjög ánægð að heyra þessar fréttir er íslenska landsliðskonan Sif Atladóttir sem hefur verið áberandi í jafnréttisbaráttu fyrir knattspyrnukonur í Svíþjóð.
„Þetta er alveg stórkostlegt. Halda upp á eina þá bestu í leiknum," skrifaði Sif eins og sjá má hér fyrir neðan.
This is pretty awesome
— Sif Atladóttir (@sifatla) October 7, 2020
Celebrating one of the best in the game https://t.co/xIZ1RZWS8X
Sif Atladóttir mætti Mörtu á Laugardalsvellinum 13. júní 2917 þegar Marta tryggði Brasilíu 1-0 sigur á íslenska landsliðinu.
Styttan af Mörtu verður í raunstærð og við hliðina á styttunni af Pele. Brasilíska kvennalandsliðið fær líka sinn stað í safninu en þar verður farið yfir sögu og afrek brasilíska kvennalandsliðsins.
Marta hefur heldur betur komið við sögu þar en hún hefur skorað 108 mörk í 154 landsleikjum og er ekki hætt. Hún er markahæsti leikmaður í úrslitakeppni HM frá upphafi með 17 mörk og þá erum við bæði að tala um hjá körlum og konum.
Marta spilar með liði Orlando Pride í bandarísku deildinni en hún varð á sínum tíma sjö sinnum sænskur meistari með þremur liðum.
Marta hefur sex sinnum verið kosin besta knattspyrnukona heims hjá FIFA, fyrst fimm ár í röð frá 2006 til 2010 og svo aftur 2018.