Dash 8-flugvélum, eins og þeim sem notaðar eru hérlendis í innanlandsfluginu, verður hægt að fljúga á mengunarlausu vetni eftir fjögur ár í stað flugvélabensíns, nái áform bandarísks fyrirtækis fram að ganga. Flugvélaframleiðendur horfa nú til vetnis sem milliorkugjafa fyrir rafknúnar flugvélar. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Tuttugu mínútna flugferð einhreyfils sex sæta Piper-flugvélar frá flugvelli norðan við London í síðasta mánuði á vegum breska félagsins ZeroAvia markar stórt skref í átt að orkuskiptum í fluginu. Það má kalla hana rafknúna vetnisvél en efnarafall um borð umbreytir vetnisgasi í rafmagn, sem knýr rafmótor. Þannig er hægt að skipta þungum rafgeymum út fyrir vetnisgas, sem er léttara en loft.

„Það eina sem þessi flugvél losar á flugi er vatnsgufa,“ sagði Val Miftakhov, forstjóri og stofnandi ZeroAvia, þegar hann kynnti fréttamönnum verkefnið, sem styrkt er af breskum stjórnvöldum.
„Við höfum einnig sett upp innviði sem tryggja að sjálf vetnisframleiðslan er mengunarfrí. Hún er hrein.
Vélin er ekki eins hávær og þeir sem fljúga henni finna ekki fyrir sektarkennd að fljúga,“ sagði forstjóri ZeroAvia.

Airbus kynnti einnig í síðasta mánuði þróunarverkefni af svipuðu tagi, með þremur mismunandi tegundum flugvéla, þar á meðal fljúgandi væng fyrir allt að tvöhundruð farþega. Bæði á að nota vetni beint til að knýja sprengihreyfla en einnig að nota vetnisgas sem millimiðil til að knýja rafmagnsmótora. Markmið Airbus er að koma slíkum vélum í farþegaflug eftir fimmtán ár.

Bandaríska félagið Universal Hydrogen telur hins vegar ástæðulaust að bíða svo lengi og vinnur að lausn sem gæti kannski nýst innanlandsflugi Íslendinga innan fárra ára. Félagið, sem Airbus á reyndar hlut í, hyggst umbreyta Dash 8-skrúfuþotum, eins og þeim sem Air Iceland Connect notar, til að unnt verði að fljúga þeim á raforku í stað flugvélabensíns. Fjarlægja á tvær öftustu sætaraðirnar til að koma þar fyrir geymum fyrir vetnisgas og búnaði til að breyta því í rafmagn og eiga fyrstu vélarnar að vera komnar með lofthæfisskírteini árið 2024.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: