Alls greindist 81 með kórónuveiruna innanlands í gær. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á covid.is. 1.170 eru nú í einangrun með kórónuveiruna hér á landi og hafa aldrei verið fleiri.
Af þeim 81 sem greindist með veiruna í gær voru aðeins 16 utan sóttkvíar. Það þýðir að mikill meirihluta þeirra sem greindust, eða 65 manns, voru í sóttkví við greiningu.
Það er hæsta hlutfall sem hefur sést til þessa, að því er fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna sem hófst klukkan 11:03.
Nú eru 3.035 manns í sóttkví. Nýgengi smita innanlands er 281,2 og hefur aldrei verið hærra síðan faraldurinn hófst hér á landi síðasta vetur.
Nýgengi landamærasmita er 9,0 en alls greindust átján manns í skimun á landamærunum í gær Beðið er eftir mótefnamælingu í öllum tilfellum. Er þetta óvenju há tala en um var að ræða hóp fólks sem var á ferðalagi innanlands að sögn Þórólfs.
26 manns eru inniliggjandi á Landspítalanum vegna Covid-19. Þar af eru þrír á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél.
Fréttin hefur verið uppfærð.