Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, segir að rimmurnar eftirminnilegu við Sir Alex Ferguson hafi breytt sér í skrímsli.
Mikill rígur var á milli Wenger og Fergusons og Arsenal og Manchester United í um áratug og oftar en ekki sauð upp úr í leikjum liðanna. Wenger segir að glíman við Ferguson hafi dregið fram það versta í sér.
„Hann var minn helsti andstæðingur í tíu ár. Þetta var alvöru samkeppni, annað hvort ég eða þú,“ sagði Wenger í The Graham Norton Show á BBC.
„Það er sársaukafullt að tapa og mér leið alltaf eins og ég væri líkamlega veikur þegar ég tapaði. Þegar ég var yngri hélt ég að ég myndi ekki endast í stjórastarfinu því það er svo mikið undir og ég svo tapsár.“
Wenger segir að fótboltinn og þjálfun hafi átt hug hans allan, þannig að annað komst ekki að.
„Fótboltinn var allt. Þú verður að finna tilgang í lífinu og fótboltinn hafði tilgang fyrir mig. Þegar ég horfi til baka er ógnvekjandi hversu mikilvægur fótboltinn var mér. Af hverju fórnaði ég svona miklu, lifði hálfgerðu munkalífi og vildi ekki vita neitt annað?“ sagði Wenger.
Frakkinn stýrði Arsenal í 22 ár og gerði liðið þrisvar sinnum að Englandsmeisturum og sjö sinnum að bikarmeisturum.