Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, segir að tilmæli sóttvarnalæknis um íþróttastarf verði nú að reglum.
Allar íþróttir með snertingu á höfuðborgarsvæðinu verða bannaðar, sama hvort þær eru innandyra eða utandyra. Núverandi reglur kveða á um að íþróttir og líkamsrækt innandyra sé óheimil á höfuðborgarsvæðinu.
„Varðandi íþróttaiðkunina er verið að gera þau tilmæli sem sóttvarnalæknir setti fram í síðustu eða þarsíðustu viku að reglum sem þýðir að allt íþróttastarf með snertingu, það er verið að taka nánar á því. Það sama gildir utandyra og innandyra,“ sagði Guðmundur Ingi í samtali við Vísi.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.
Gert er ráð fyrir að breytingar á reglugerð heilbrigðisráðherra um kórónuveiruaðgerðir taki gildi á þriðjudaginn, 20. október, og gildi í tvær til þrjár vikur.
Hlé var gert á öllu mótahaldi fyrr í þessum mánuði og lið á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki mátt æfa í tæpar tvær vikur.
Ljóst er að þetta setur stórt strik í reikning Knattspyrnusambands Íslands sem var búið að gefa sér frest til 1. desember til að klára Íslandsmótið.
Fréttin hefur verið uppfærð varðandi að væntanlegar breytingar á íþróttastarfi ná til höfuðborgarsvæðisins. Fyrirkomulagið varðandi íþróttir verður óbreytt á landsbyggðinni.