Armenía og Aserbaídsjan hafa samið um vopnahlé í deilunum um héraðið Nagorno-Karabakh. Vopnahléið hófst á miðnætti í kvöld að staðartíma, eða klukkan átta að íslenskum tíma.
Ákvörðunin var tekin í samræmi við vopnahlé sem var samþykkt um síðustu helgi. Vopnahléið var þó brotið og höfðu Armenar og Aserar sakað hvorn annan um að hafa brotið gegn vopnahléinu í Nagorno-Karabakh í liðinni viku.
Átök milli Asera og Armena hófust í héraðinu í lok september og hafa hundruð látið lífið. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en Armenar hafa öldum saman búið í héraðinu.
Átök vegna héraðsins hafa ekki verið meiri síðan sex ára stríð braust út milli ríkjanna á níunda áratugnum og var vopnahlé samþykkt árið 1994.